Allt starfsfólk, óháð staðsetningu í heiminum, á rétt á mannsæmandi aðstæðum til vinnu. Þrátt fyrir þetta er barnaþrælkun og nauðungarvinna enn áskorun í alþjóðlegum virðiskeðjum fyrirtækja. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun leggja áherslu á að hvers kyns aðgerðir sem miða að því að útrýma fátækt skuli tryggja mannsæmandi vinnuaðstæður.


Það er mikilvægt að fyrirtæki greini hvers konar áhrif starfsemi þeirra hefur á vinnumarkaðsréttindi í alþjóðlegum virðiskeðjum. Það að fyrirtæki bregðist við neikvæðum áhrifum á slík grundvallarréttindi er forsenda fyrir starfsemi sem nýtur trausts og samþykkis.


Þá öðlast fyrirtæki, sem stuðla að fjölbreytileika og jafnrétti með starfsemi sinni, greiðari aðgang að hæfum starfsmönnum, aukinni starfsánægju, nýsköpun og betri ímynd.

Fyrirtæki styðji við félagafrelsi og viðurkenni að fullu rétt til kjarasamninga

Fyrirtæki útiloki nauðungar- og þrælkunarvinnu

Fyrirtæki útiloki barnavinnu

Fyrirtæki útiloki misrétti til vinnu og starfsvals

Meginmarkmiðin fjögur sem heyra undir vinnumarkað byggja, líkt og meginmarkmið 1 og 2, á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum. Þá er að minnsta kosti átt við þau sem útlistuð eru í International Bill of Human Rights og The International Labour Organization’s Declaration on Fundamental Principles and Rights at Work. Fyrirtæki sem gerast þátttakendur að UN Global Compact skuldbinda sig því að stefnur þeirra og starfsemi stuðli að mannsæmandi vinnuaðstæðum og komi í veg fyrir mismunun. Þátttakendur skuldbinda sig einnig til að fyrirtækið komi hvorki beint né óbeint að barnavinnu.

Þrennt sem fyrirtæki ættu að huga að í tengslum við meginmarkmið á sviði vinnumarkaðs:

Stefnur og ferlar

Tryggja stefnur og ferlar fyrirtækisins að félagafrelsi á vinnumarkaði sé virt, að unnið sé gegn mismunun og að stuðlað sé að jöfnum tækifærum og fjölbreytileika?

Fræðsla og þjálfun

Býður fyrirtækið upp á fræðslu og þjálfun sem tryggir að allir starfsmenn þekki stefnur og ferla fyrirtækisins?

Kvörtunarréttur

Hafa starfsmenn tækifæri til að tilkynna brot á stefnu fyrirtækisins, og eru ferlar til staðar innan fyrirtækisins sem tryggja að tekið sé á kvörtunum á árangursríkan, réttlátan og gagnsæjan hátt? 

Share by: