Heimsbyggðin stendur frammi fyrir áður óþekktum umhverfisáskorunum sem orsakast að stórum hluta af mannavöldum. Loftslagsbreytingar, mengun og tap á líffræðilegum fjölbreytileika og náttúruauðlindum setur þrýsting á náttúru og vistkerfi jarðar og ógnar lífsskilyrðum mannkyns.


Fyrirtæki sem gerast þátttakendur að UN Global Compact skuldbinda sig til að stuðla að úrlausn þessara áskorana með því að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Samtímis takast þau á við áskoranir sem hafa áhrif á starfsemi fyrirtækja og stafa af umhverfisvánni eins og skort á auðlindum, hækkandi kostnað, og aukið regluverk á sviði umhverfismála.


Fyrirtæki styðji beitingu varúðarreglu í umhverfismálum

Meginmarkmið 7 fjallar um varúðarregluna - kerfisbundna nálgun við áhættumat og stjórnun. Markmiðið fyrirskipar að þrátt fyrir að vísindalega fullvissu kunni að skorta, skuli fyrirtæki leggja kapp á að koma í veg fyrir athafnir eða framkvæmdir sem gætu haft alvarlegt umhverfistjón í för með sér. Óvissa um skaða á umhverfi og fólki getur ein og sér verið nægjanleg ástæða til aðgerða.

Fyrirtæki sýni frumkvæði til aukinnar ábyrgðar í umhverfismálum

Fyrirtæki hvetji til þróunar og nýtingar á umhverfisvænni tækni

Umskipti yfir í hringrásar- og græna hagkerfið fela í sér tækifæri fyrir fyrirtæki sem axla umhverfislega ábyrgð. Fyrirbyggjandi aðgerðir tengdar umhverfismálum bæta nýtingu auðlinda, draga úr kostnaði, og styðja við þróun nýrra hringrásarviðskiptalíkana og grænna vara. Þá verður græn ímynd sífellt eftirsóknarverðari meðal viðskiptavina, fjárfesta og starfsmanna. Slík ímynd styrkir samkeppnishæfni og eykur vöxt fyrirtækisins.


Meginmarkmiðin þrjú sem heyra undir umhverfismál byggja á The Rio declaration on environment and development” og Framkvæmdadagskrá 21 (e. Agenda 21) um sjálfbæra þróun.


Fyrirtæki sem taka þátt í UN Global Compact skuldbinda sig til að leggja kerfisbundið áherslu á umhverfisstjórnun í starfsemi sinni og stefnumótun. Jafnframt skuldbinda þau sig til að setja skýrar kröfur um að umhverfissjónarmið séu virt í virðiskeðju sinni. Þá skipta sameiginlegar aðgerðir sköpum til að standa við loftslagsmarkmið Parísarsáttmálans. Því eru fyrirtæki hvött til til að leggja sitt að mörkum við að takmarka hlýnun jarðar.


Þrjú atriði sem fyrirtæki ættu sérstaklega að huga að í tengslum við meginmarkmiðin þrjú á sviði umhverfismála:

Stefna

Tryggir stefna fyrirtækisins umhverfislega ábyrga starfsemi og stjórnun, þar með talið í virðiskeðju sinni?

Stjórnun

Framkvæmir fyrirtækið áhættumat og lífsferilsgreiningu á umhverfis- og loftslagsáhrifum starfseminnar, þjónustu eða vörum fyrirtækisins?


Skráning og skýrslugerð

Heldur fyrirtækið utan um upplýsingar um viðleitni til umhverfismála og eru umhverfis- og loftslagsáhrif fyrirtækisins skráð í árlegri framvinduskýrslu UN Global Compact (e. Communication on Progress) eða með öðrum hætti?

Share by: