Þegar talað er um mannréttindi er átt við alþjóðlega yfirlýst mannréttindi, grundvölluð í alþjóðlegum samningum og samþykktum.
Slík mannréttindi eru meðal annars útlistuð í International Bill of Human Rights og The International Labour Organization’s Declaration on Fundamental Principles and Rights at Work.
Þrátt fyrir að aðrir staðlar geti einnig átt við undir vissum kringumstæðum og innan ákveðinna geira, eru það þessi grundvallarmannréttindi sem mynda meginmarkmiðin tvö sem heyra undir svið mannréttinda.
Fyrirtæki styðji og virði vernd alþjóðlegra mannréttinda
Verndun mannréttinda er ekki einungis á ábyrgð stjórnvalda. Fyrirtæki og einstaklingar gegna einnig mikilvægu hlutverki í því að virða og stuðla að mannréttindum. Virðing fyrir mannréttindum er því, í stuttu máli, sameiginleg ábyrgð okkar allra.
Fyrirtæki sem virða og stuðla að mannréttindum styrkjast fyrir vikið. Starfsmenn sem njóta virðingar í starfi eru afkastameiri og líklegri til að halda tryggð við sinn vinnustað. Þá sækist verðmætt starfsfólk, í leit að nýjum áskorunum, í auknu mæli í fyrirtæki sem endurspegla ábyrgð gagnvart samfélaginu og umhverfinu í störfum sínum og stjórnun. Yngri kynslóðir bera sífellt hærri væntingar til vinnuveitenda sinna þegar kemur að sjálfbærni og mannréttindum.
Þá getur áhersla á mannréttindi og virðingu fyrir ólíkum einstaklingum ýtt undir nýsköpun, veitt aðgang að nýjum mörkuðum og styrkt ímynd fyrirtækisins sem mikilvægs hlekkjar sem hefur uppbyggileg áhrif á samfélagið.
Kröfur um verndun mannréttinda sem gerðar eru til fyrirtækja eru ólíkar þeim sem gerðar eru til stjórnvalda. Fyrirtækjum ber að virða mannréttindi með því að tryggja að ekki sé brotið á grundvallarréttindum eins og þau eru skilgreind í International Bill of Human Rights og The International Labour Organization’s Declaration on Fundamental Principles and Rights at Work, hið minnsta. Fyrirtækjum ber einnig að taka á neikvæðum áhrifum sem þau kunna að valda eða vera þátttakandi í.
En hvað þurfa fyrirtæki að gera til að tryggja að mannréttindi séu virt í þeirra stöfum? Sameinuðu þjóðirnar svara þessari spurningu í The UN´s Guiding Principles on Business and Human Rights frá 2011. Starfsemi allra fyrirtækja snerta mannréttindi á einn eða annan hátt og hafa því óumflýjanlega áhrif – bæði jákvæð og neikvæð- á málaflokkinn. The UN´s Guiding Principles on Business and Human Rights kveða á um að þess vegna beri fyrirtækjum að innleiða stjórnunarkerfi sem tryggir viðhald og eflingu jákvæðra áhrifa, en lágmörkun og fyrirbyggingu neikvæðara áhrifa. Þetta krefst þess að fyrirtæki greini áhrif sín og bregðist við þar sem við á. Þá er mikilvægt að fyrirtæki hugi sérstaklega að viðkvæmum hópum svo sem börnum, konum, fólki með fötlun, innflytjendum, flóttafólki, öldruðum o.s.frv.
Til þess að stuðla að því að þitt fyrirtæki virði mannréttindi er mikilvægt að það nýti sér markvisst áreiðanleikakannanir. Slíkt ferli greinir áhættu á neikvæðum áhrifum á mannréttindi tengt starfsemi þíns fyrirtækis og veitir góða innsýn í hvaða ferlar gætu nýst til að lágmarka og koma í veg fyrir þau. Þannig er tryggt að neikvæð áhrif þíns fyrirtækis á samfélagið, nær og fjær, séu tekin til umfjöllunar. Það að þau séu tekin til umfjöllunar er forsenda úrlausnar þeirra í samstarfi við sérfræðinga og hlutaðeigandi hagsmunaaðila.
Ábyrgð fyrirtækja gagnvart mannréttindum er óháð skyldum stjórnvalda. Upp geta komið aðstæður þar sem gildandi lög ríkis stangast á við alþjóðlega viðurkennd mannréttindi. Í slíkum tilvikum merkir “að virða mannréttindi” að fyrirtæki skuli ávallt leitast við að viðhalda alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum. Aðstæður sem þessar koma oftast upp á óstöðugum svæðum þar sem brot á mannréttindum eru tíðari. Það er mikilvægt að fyrirtæki virði mannréttindi í slíkum tilfellum, þrátt fyrir aðstæður.
Að styðja við mannréttindi merkir að leggja sitt að mörkum við að stuðla að framfylgd þeirra. Þetta felur í sér að fyrirtæki sjái tækifæri í að beita sér fyrir því að viðhalda mannréttindum. Fyrirtæki geta beitt sér í gegnum almenna starfsemi fyrirtækisins, ábyrgar fjárfestingar, samstarfsverkefni og þáttöku í opinberri stefnumótun svo eitthvað sé nefnt. Þessar fjórar leiðir eru frekar skýrðar í Blueprint for Corporate Sustainability Leadership.
Virðing fyrir og stuðningur við mannréttindi eru nátengd í framkvæmd. Stefnur fyrirtækja fela til dæmis oft í sér jákvæðar skuldbindingar sem styðja við mannréttindi og minna þannig á mikilvægi ákveðinna réttinda sem snerta starfsemi fyrirtækisins. Áreiðanleikakannanir fyrirtækisins geta nýst til að afhjúpa bæði tækifæri til að stuðla að mannréttindum og til að auka virðingu fyrir þeim. Skýrslur fyrirtækja geta að auki innihaldið upplýsingar um jákvæð áhrif fyrirtækisins á mannréttindi.
Fyrirtæki geta virt og stutt við mannréttindi í daglegum störfum, til dæmis með því að tryggja öruggar og heilbrigðar vinnuaðstæður, að komið sé í veg fyrir mismunun við ráðningar, og að fyrirtækið styðji hvorki beint né óbeint við starfsemi þar sem mannréttindabrot eiga sér stað.
Fyrirtæki tryggi að þau gerist ekki meðsek um mannréttindabrot
Fyrirtækjum ber að tryggja að þau séu ekki þátttakendur í mannréttindabrotum stjórnvalda, annarra fyrirtækja, einstaklinga eða hópa. Hætta á slíku leynist í öllum löndum og geirum. Því er mikilvægt að fyrirtæki hafi góðan skilning á þeim svæðum sem starfsemi þeirra snertir svo þau geti komið í veg fyrir að gerast meðsek um brot á mannréttindum.
Hætta á hlutdeild í brotum minnkar ef fyrirtæki vinnur kerfisbundið að markmiði 2. Það má gera með þróun stefnumótunar og framkvæmd áreiðanleikakannana á sjálfbærni fyrirtækisins sem ná einnig yfir samstarfs- og hagsmunaaðila.
Ferli áreiðanleikakannana miðar að því að greina, koma í veg fyrir eða draga úr brotum á mannréttindum sem fyrirtækið gæti mögulega átt hlut í. Að auki undirstrikar þátttaka í ferlinu að fyrirtækið er meðvitað og tekur nauðsynleg skref til að forðast hvers kyns hlutdeild í mannréttindabrotum.
Þitt fyrirtæki gæti talist meðsekt um mannréttindabrot ef:
Aðkoma að glæpsamlegri starfsemi er óheimil í flestum löndum. Meðsekt fyrirtækja takmarkast þó ekki við aðstæður þar sem fyrirtæki bera lagalega ábyrgð á aðkomu sinni að mannréttindabrotum sem annar aðili fremur. Fyrirtæki geta gerst meðsek í víðari skilningi en þeim sem skilgreindur er í landslögum, til dæmis í aðstæðum þar sem fyrirtæki á möguleika á því að hagnast af brotum á mannréttindum sem annar aðili fremur.
Fyrirtæki getur gerst meðsekt á þrjá vegu:
Þegar fyrirtæki veitir þjónustu sem það veit að stuðlar að mannréttindabrotum.
Þegar fyrirtæki hagnast á brotum á mannréttindum, þó að fyrirtæki sjálft komi ekki að þeim.
Þegar fyrirtæki veku ekki athygli á eða bregst ekki við kerfisbundnum eða viðvarandi brotum á mannréttindum sem það kemur óbeint að.