Spilling grefur undan trausti borgara til stjórnvalda og hefur áhrif á traust milli fyrirtækja og neytenda. Því getur spilling hindrað efnahagslega og félagslega framþróun verulega. Öll fyrirtæki, stór sem smá, eru viðkvæm fyrir spillingu. Spilling hamlar vexti fyrirtækja, eykur kostnað og felur í sér alvarlega lagalega áhættu og skaðar ímynd fyrirtækja þar sem hún þrífst.

 

Þá grefur spilling undan sanngjarnri samkeppni og hindrar langtímafjárfestingar. Auknar og strangari reglugerðir sem snúa að spillingu gera það að verkum að hagsmunum allra fyrirtækja er betur borgið ef þau beita sér gegn hvers kyns spillingu.

Fyrirtæki vinni gegn hvers kyns spillingu, þar með talið kúgun og mútum

Meginmarkmið 10 byggir á United Nations Convention against Corruption (UNCAC). Markmiðið tekur m.a. á peningaþvætti, misnotkun valds í eigin þágu og leyndri hagsmunagæslu sem felur í sér fjárhagslegar gjafir eða mútur.

Fyrirtæki sem eru þátttakendur í UN Global Compact skuldbinda sig til að þróa stefnur og ferla sem miða að því að vinna gegn spillingu, bæði innan eigin reksturs og í gegnum virðiskeðju sína. Þá eru fyrirtæki hvött til að vinna með öðrum fyrirtækjum og hagsmunaaðilum að því að stuðla að sjálfbæru alþjóðahagkerfi.

Þrjú atriði sem fyrirtæki ættu sérstaklega að huga að í tengslum við meginmarkmiðið á sviði varna gegn spillingu:

Stefnur og ferlar

Eru stefnur, ferlar og aðgerðir til að vinna gegn spillingu innan fyrirtækisins og í virðiskeðjunni til staðar?

Miðlun og greining

Greinir fyrirtækið frá aðgerðum sínum gegn spillingu í árlegri framvinduskýrslu UN Global Compact (e. Communication on Progress) eða öðrum hætti, og deilir fyrirtækið þeim aðferðum sem reynst hafa árangursríkar í vinnu gegn spillingu með öðrum?

Sameiginlegar aðgerðir

Getur fyrirtækið, í samvinnu við önnur fyrirtæki eða hagsmunaaðila, aukið viðleitni gegn spillingu og stuðlað að sanngjarnri samkeppni þar sem allir lúta sömu reglum? 

Share by: