Eftir Audur Gudmundsdóttir
•
30. desember 2024
Árið 2024 var farsælt og viðburðaríkt hjá UN Global Compact á Íslandi. Það fjölgar áfram í hópi íslenskra fyrirtækja sem hafa ákveðið að innleiða tíu meginmarkmið UN Global Compact í rekstur sinn og við bjóðum þau öll hjartanlega velkomin í hópinn. Íslensk fyrirtæki hafa jafnt og þétt gerst þátttakendur í UN Global Compact frá árinu 2006 og þannig ákveðið að setja sjálfbærni í forgang í sínum rekstri. Við erum afar stolt af þessum fyrirtækjum sem eru leiðandi og mikilvæg fyrirmynd í íslensku atvinnulífi. Við þökkum öllum þátttakendum kærlega fyrir virka þátttöku í starfi UN Global Compact á árinu, ýmist með því að hafa tekið þátt í viðburðum eða með því að hafa sótt sér þekkingu. Það þarf samhent átak til að breyta heiminum til hins betra! Árið fór vel vel af stað. Í janúar og febrúar stóð þátttakendum til boða að sækja fjölmörg áhugaverð vefnámskeið sem er hluti af auknu samstarfi UN Global Compact staðarneta út um allan heim. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var haldinn í mars og af því tilefni var boðið upp á fjölbreytta fræðslu til að stuðla að jafnrétti í atvinnulífinu á vegum #UNGCAcademy undir þemanu Invest in women: Accelerate progress. Hápunkturinn var árlegur og sameiginlegur viðburður meðal kauphalla á heimsvísu . Halla Tómasdóttir, forseti Íslands og þáverandi forstjóri The B Team og Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri Viðskiptasviðs hjá Arion banka hringdu bjöllu fyrir jafnrétti kynjanna. Nasdaq Iceland, UN Global Compact á Íslandi, FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu, og UN Women Ísland stóðu saman að viðburðinum hér á landi. Í apríl stóðum við fyrir tveimur áhugaverðum fræðslufundum þar sem athyglinni var beint að sjálfbærnilöggjöf. Fundurinn Mannréttindi í viðskiptum – hver eru lágmarksviðmið EU taxonomy um mannréttindi? var haldinn í samvinnu við KPMG og var gríðarlega vel sóttur. Þá var haldinn veffundur í samstarfi við Rambøll um CSRD þar sem farið var yfir reynslu og lærdóm af innleiðingu CSRD í fyrirtækjarekstur. Þá fóru einnig fram fundir UN Global Compact og Evrópusambandsins í Brussel þar sem mikilvægt samtal fór fram um stöðu evrópskra fyrirtækja þegar kemur að samkeppnishæfni og mótun nýrrar sjálfbærnilöggjafar. Augljós tenging er milli regluverks Evrópusambandssins tíu meginmarkmið UN Global Compact um ábyrga viðskiptahætti, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna auk Græna sáttmála Evrópusambandsins og Parísarsamkomulagsins. Það er því ljóst að fyrirtæki í UN Global Compact eru í góðri stöðu þegar kemur að nýju regluverki þar sem þau hafa þegar innleitt skýran ramma í kringum sjálfbærnimál í sínum rekstri auk þess sem þau hafa aðgang að stuðningi í gegnum fræðslu og tengslanet samtakanna. Í maí héldum við vel heppnaða vinnustofu í samstarfi við Rambøll sem var stýrt af Rakel Guðmundsdóttir. Á vinnustofunni var farið ítarlega yfir kröfur sjálfbærniupplýsingagjafar CSRD og tvöfaldrar mikilvægisgreiningar auk ESRS staðla. Þátttakendur spreyttu sig m.a. á því að framkvæma tvöfalda mikilvægisgreiningu auk þess sem líflegar umræður sköpuðust. TNFD veffundaröð UN Global Compact í Danmörku fór af stað og á fyrsta fundinum hélt Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sjálfbærnistjóri Landsbankans, erindi um hvernig bankinn hefur nálgast kröfur í sjálfbærniupplýsingagjöf þegar kemur líffræðilegum fjölbreytileika og náttúru. Fundurinn var vel sóttur af öðrum staðarnetum UN Global Compact og við erum mjög stolt af því að íslenskt fyrirtæki deili reynslu og þekkingu á þessum vettvangi. Í júní fór fram fyrsti fundur í hraðlinum Climate Ambition Accelerator og hófst námskeiðið formlega í ágúst. Líkt og í fyrra, er um samvinnuverkefni norrænu staðarneta UN Global Compact að ræða. Í hraðlinum fá þátttakendur þjálfun í að setja loftslagsmarkmið í samræmi við aðferðafræði Science Based Targets, tilkynna um losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt GHG bókuninni og innleiðingu aðferða til að draga úr losun. Þrjú íslensk fyrirtæki tóku þátt og luku hraðlinum í byrjun desember . Skrifstofan okkar fékk mikilvægan liðsauka í september þegar Friðsemd Sveinsdóttir hóf stör f . Fánadagur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fór fram 25. september og flögguðu fyrirtæki og stofnanir fánanum til að minna á mikilvægi markmiðanna. UN Global Compact tók virkan þátt í Loftslagsviku Sameinuðu þjóðanna sem fer fram árlega. Norrænu staðarnetin stóðu fyrir sameiginlegum og vel heppnuðum viðburðum þar sem hæst ber að nefna hringborðsumræður forstjóra (Nordic CEO Roundrables). Við fjölluðum um jafnrétti og inngildingu í íslensku samfélagi á veffundinum Samfélagslega FRÁBÆR sem haldinn var í samvinnu við Kveikju , sem er hugmyndasmiðja sem vinnur í að skapa nýjar, jafnréttismiðaðar lausnir sem miða að því að bæta starfsemi fyrirtækja og stofnana til að styrkja samfélagið. Í október fór fram málstofa í samstarfi við Háskólann á Akureyri um aðlögun rekstrar að markmiðum um sjálfbæra þróun. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við HA og að efla sjálfbærni á Norðurlandi. Mannréttindamálin hafa átt hug okkar allann í nóvember og hvernig við getum stutt fyrirtæki í að vinna markvisst að því að koma í veg fyrir mannréttindabrot í eigin starfsemi og í gegnum virðiskeðjuna. Haldinn var kynningarfundur á Human rights and Business Accelerator sem hefst í febrúar 2025. Sjálfbærni snýst um að taka mið af réttindum framtíðarkynslóða og því ættu fyrirtæki alltaf að setja réttindi barna í forgang. Samstarf UN Global Compact á Íslandi og UNICEF á Íslandi undirstrikar þetta og stóðum félögin fyrir sameiginlegum hádegisverðarfundi þar sem fjallað var um áhættur tengdar barnavinnu í virðiskeðjunni, ábyrgð fyrirtækja og forvarnir. Fundurinn var afar vel heppnaður og hafa íslensk fyrirtæki alla burði til að vera framúrskarandi þegar kemur að því að setja réttindi barna í forgang. Allir íslenskir þátttakendur hafa skilað framvinduskýrslu (Communication on Progress) UN Global Compact nú í lok desember . Íslensk fyrirtæki skara svo sannarlega frammúr en um er að ræða besta árangur á heimsvísu. Framvinduskýrslan er mikilvægur liður í þátttöku í UN Global Compact og því að miðla grunnupplýsingum um stöðu sjálfbærnimála (ESG) á áreiðanlegan og gagnsæjan hátt. Vel gert! Kæru þátttakendur, ráðgjafaráð og samstarfsaðilar, gleðilegt og sjálfbært nýtt ár. Við hlökkum til samstarfsins 2025!