Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Auður Hrefna Guðmundsdóttir, svæðisstjóri UN Global Compact, hafa undirritað viljayfirlýsingu um að efla samstarf sín í milli um að hvetja íslensk fyrirtæki til að tileinka sér ábyrga viðskiptahætti og styðja við sjálfbærniverkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.
Viljayfirlýsingin felur í sér að UNICEF á Íslandi tekur að sér að kynna UN Global Compact, hnattrænt samkomulag Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum, fyrir samstarfsaðilum og hvetja fyrirtæki til að gerast aðilar að UN Global Compact.
UN Global Compact á Íslandi mun hvetja meðlimi, sem teljast vera lítil og meðalstór fyrirtæki, til að taka þátt í Loftslagsloforði UNICEF á Íslandi sem og að vekja athygli stærri samstarfsfyrirtækja á möguleikum þátttöku í verkefnum UNICEF.
„Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun eru vegvísir heimsins um betri framtíð fyrir okkur öll. Sautjánda og síðasta heimsmarkmiðið fjallar um samvinnu um markmiðin. Mögulega er þetta mikilvægasta markmiðið því það er ómögulegt að ná árangri öðruvísi en í víðtæku og öflugu samstarfi. Landsnefnd UNICEF á Íslandi og UN Global Compact á Íslandi ætla að sýna samvinnu í verki í víðtæku samtali okkar við atvinnulífið. Við vonum að við fáum góða hlustun og metnaðarfulla samstarfsaðila í því sameiginlega verkefni okkar allra að ná heimsmarkmiðunum.“
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF
“ Viljayfirlýsing UNICEF á Íslandi og UN Global Compact á Íslandi er dæmi um mikilvægt samstarf sem ætlað er að stuðla að sjálfbærri þróun og tryggja réttindi barna um allan heim. Starfsemi samtakanna er ólík en í því felst einmitt mikilvægur styrkleiki. Heimsmarkmiðin eru leiðarljós beggja samtaka. UNICEF hefur víðtæka sérþekkingu á barnavernd og réttindum barna og veitir innsýn og leiðbeiningar um málefni sem tengjast börnum. UN Global Compact, sem er stærsta sjálfbærniframtak heims, virkjar fyrirtæki til að taka upp sjálfbæra og samfélagslega ábyrga stefnu. Saman getum við unnið að því að tryggja að aðgerðir og stefnur fyrirtækja séu í takt við meginreglur um réttindi barna og heimsmarkmiðin í víðara samhengi.“
Auður Hrefna Guðmundsdóttir, svæðisstjóri UN Global Compact á Íslandi
Enn fremur felur viljayfirlýsingin sér að báðir aðilar styðji hvorn annan með því að deila upplýsingum, viðburðum, tengiliðum og þekkingu er varðar sjálfbærni og ábyrgð fyrirtækja.
Þá munu félögin taka höndum saman um að vekja athygli á mikilvægi sjálfbærni og hvetja til aukinna þátttöku íslenskra fyrirtækja í verkefnum henni tengdri.